Sjálfseyðingarhvötin grein eftir Ellert Schram
3.2.2007 | 11:59
Hér kemur grein eftir Ellert sem kom í Fréttablaðinu í dag. Þessi grein er allt sem segja þarf, er skrifuð eins og kæmi frá mér, en Ellert er mun betri penni en ég og kemst betur að orði. Því kemur hér greinin hans.
Sjálfseyðingarhvötin
Þegar ég var í Sjálfstæðisflokknum fyrr á árum var hverjum manni ljóst að flokkurinn hafði breiðan faðm. Allt frá öfgafullum frjálshyggjupostulum til jarðbundinna jafnaðarmanna.
Þegar ég var í Sjálfstæðisflokknum fyrr á árum var hverjum manni ljóst að flokkurinn hafði breiðan faðm. Allt frá öfgafullum frjálshyggjupostulum til jarðbundinna jafnaðarmanna. Stórkapítalistar og eignamenn rugluðu saman reytum með launafólki og nytsömum sakleysingjum. Sumt af þessu fólki hafði jafnvel enga pólitíska skoðun aðra en þá að vera í flokknum. Þetta var líkast því að koma á trúarsamkomu þar sem fólk safnast saman sitt úr hverri áttinni án þess að þekkjast að öðru leyti. Þeir höfðu sem sagt vit á því að standa saman í flokknum um völd og áhrif. Þannig hafa þeir haldið völdunum og áhrifunum. Ólíkir eins og þeir voru og eru.
Andspænis slóst svo hin pólitíkin, innbyrðis, í keimlíkum litlum flokkum og var þeim verst sem hún unni mest.
Svo var það sem frjálshyggjuæðið greip um sig í Sjálfstæðisflokknum, stóriðjudraumar, græðgi og sérgæska var yfirþyrmandi leiðarljós á bænum þeim. Auðlindin í sjónum var afhent ókeypis til velunnara og vildarmanna, almannaeignir seldar á gjafaprísum og hlaðið undir misskiptingu og ójöfnuð. Þá þótti mörgum nóg um og hættu að mæta á trúarsamkomurnar.
Á sama tíma gerðust þau undur og stórmerki að félagshyggjuflokkarnir gengu í eina sæng undir merkjum jafnaðarstefnunnar. Regnhlífarsamtök frjálslynds og hófsams félagshyggjufólks voru í burðarliðnum og von kviknaði um nýjar áherslur og jafnvel straumhvörf í íslenskum stjórnmálum. Ég var einn af mörgum sem gekk til liðs við þessa fylkingu í þeirri von að manneskjuleg lífsgildi fengju brautargengi. Þetta var ekki spurning um vinstri eða hægri heldur um mannréttindi og jöfnuð. Enda fór þetta vel af stað. Í síðustu kosningum hrapaði Sjálfstæðisflokkurinn niður í sögulegt lágmark og hékk aðeins á völdunum í skjóli lítils Framsóknarflokks. Og nú þegar kosningaár var aftur að ganga í garð, var tækifæri til að láta kné fylgja kviði.
En það blæs ekki byrlega. Enn og aftur, rétt eins og í gamla daga, ætlar andstæðingum Sjálfstæðisflokksins að takast að klúðra sinni eigin stöðu. Allt það góða fólk sem vill styrkja velferðarkerfið, auka félagslegt réttlæti, draga úr stóriðjuframkvæmdum og náttúruspjöllum, koma til móts við aldraða og öryrkja, allt fólkið sem er andvígt frjálshyggjuæðinu og lögmáli frumskógarins, sýnist ætla að ganga til kosninga í krafti sundurlyndisfjandans. Hver upp á eigin spýtur, hver í sínum litla sjálfumglaða heimi, nákvæmlega eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefði hannað þessa kosningabaráttu fyrir sjálfan sig. Og að loknum kosningum getur hann valið sér undirgefinn meðreiðarsvein, eins og gerðist í kosningunum í Reykavík í vor.
Skoðum stöðuna. Til að ná vopnum sínum gagnvart ríkisstjórninni eru ráðagerðir uppi meðal öryrkja að bjóða fram sér. Manni skilst að tvö framboð séu í undirbúningi í nafni aldraðra. Framtíðarlandið íhugar að bjóða fram sér. Frjálslyndir tvístrast hugsanlega í tvö framboð. Allt er þetta fólk óánægt og gagnrýnið á ráðslag stjórnvalda (les. Sjálfstæðisflokksins), á sínum málum, en veður síðan áfram í þeirri skammsýni að stofna til fleiri framboða, sem allt mun verða vatn á myllu Sjálfstæðisflokksins. Eða hvaðan munu þau atkvæði koma, sem þessi sérframboð sækjast eftir nema frá þeim sem eru andvígir núverandi ríkisstjórn?
Jafnvel Jón Baldvin, maðurinn sem hefur það fyrir hugsjón að búa til sterkan jafnaðarmannaflokk, reifar þá hugmynd frammi fyrir alþjóð að til greina komi að efna til sérframboðs!
Manni fallast hendur. Hvenær ætla frjálslyndir jafnaðarmenn þessa lands að átta sig á því að þeir eru að grafa sína eigin gröf með þessum smáflokkasérframboðum? Sjálfstæðisflokkurinn fitnar á fjósbitanum í hvert skipti sem nýtt framboð stingur upp kollinum. Það verður engin breyting í íslenskum stjórnmálum, ekki um einn þumlung, meðan jafnaðar- og félagshyggjumenn allra flokka berast á banaspjótum hver gegn öðrum. Þetta er óskastaða fyrir íhaldið. Þá getur það deilt og drottnað, þá eiga stjórnarandstæðingar, umhverfissinnar, aldraðir, öryrkjar og allir þeir sem vilja núverandi valdhafa út úr stjórnarráðinu, síþverrandi möguleika á að koma málum sínum í höfn. Þeir mála sig út í horn.
Maður skyldi halda að þetta annars góða fólk sé haldið sjálfseyðingarhvöt. Hafi skipað sér í raðir sjálfsmorðssveita íslenskra stjórnmála. Þetta væri svo sem allt í lagi ef hér væri ekkert annað undir en kapphlaup um að gerast hækja stærsta andstæðingsins. En ég hélt að stjórnmál gengju út á það að láta sameiginlegan málstað ráða för. Og sá málstaður hefur meirihluta þjóðarinnar á bak við sig ef honum auðnaðist að standa saman í einu liði, einni órjúfandi fylkingu.
Hversu oft þurfa menn að tapa í kosningum til að átta sig á þessum veruleika?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæl. Þetta er alveg eins og það hafi komið frá mínu eigin hjarta. En vandamál Samfylkingarinnar sjá þeir ekki sjálfir og það er verulega slæmt. Samfylkingin verður að koma strax fram með afdráttalausa stefnu í kvótamálinu við fiskveiðar. Það mál er undirliggjandi í þjóðarsálinni og vegur þyngra en nokkurn mann grunar. Það er ekki skrítið að Samfylkingin tapi fylgi á meðan flokksmenn þegja þunnu hljóði um fiskveiðistjórnuninna.
Níels A. Ársælsson., 3.2.2007 kl. 12:38
Níels ég er sammála þér að það þarf að ræða miklu meira um fiskveiðistjórnunina í þessari kosningabaráttu.
Áslaug Sigurjónsdóttir, 3.2.2007 kl. 13:04
Mikið assgoti er ég sammála kallinum. Það er kominn tími á að kennarinn kalli á þögn í bekknum. Ég hef einmitt verið að blogga um þetta rænulaus sundurlyndi á minni bloggsíðu og benda á að sjaldan hefur verið meira um verðug málefni til að sameinast um. Menn verða að sjá lengra nefi sér og fá skilning á samhengi orsakar og afleiðingar í þjóðmálum. Skoða fortíð og framtíð í breiðu samhengi. Manni finnst oft að maður sé á morfís samkomu og að þetta sé einhver rökleiðsluleikur um einskisverð smámál. Væri gaman að heyra hvað þér finnst um vangaveltur mínar á blogginu í þessu samhengi.
Jón Steinar Ragnarsson, 6.2.2007 kl. 01:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.